top of page
Writer's pictureKjartan Hrafn

Hvað er efnaskiptaheilsa?

Við tölum mikið um mikilvægi efnaskiptaheilsu og áttum okkur á því að það er erfitt að tengja við nýtt og framandi hugtak... en það snýst um orkustjórnun.


Líkaminn þarf orku til knýja starfsemina áfram (heilinn tekur 20% af þeirri orku). Við höfum þróast þannig að við getum nýtt fleiri en einn orkugjafa úr fæðunni - í stórum dráttum eru það fita og kolvetni. Áður fyrr var nauðsynlegt að safna forðaorku (fituforða) yfir sumartíma og snemma á haustin, til að brenna yfir veturinn þegar erfiðara var að ná sér í fæðu. Líkaminn safnar fituforða með hormóninu insúlín - sem brisið sendir út þegar við borðum sætar og kolvetnaríkar matvörur. Við það slökknar á sedduskilaboðum og við birgjum okkur upp af orku. Umfram orku er breytt í fitu til að geyma fyrir veturinn.


En í dag þegar vetrinum fylgir ekki matarskortur, náum við ekki að losa orkugeymsluna sem stækkar og stækkar, en það er ekki eina vandamálið. Frumurnar sem eiga að nýta orkuna (blóðsykur) sem fylgir sætum og kolvetnaríkum matvælum, hætta smám saman að taka mark á insúlíninu, mynda viðnám og blóðsykrinn kemst ekki inn. Þetta kallast insúlinviðnám ... og veldur versnandi efnaskiptaheilsu.


Sem betur fer er hægt að sjá merki þessa áður en fylgisjúkdómar koma fram eins og háþrýstingur, sykursýki 2, offita, hjarta- og æðasjúkdómar, ofl. Einkenni koma fram hjá orkufrekasta líffærinu (heilanum) eins og þreyta/slen, einbeitingarskortur eða heilaþoka ofl. En einnig þyngdaraukning, hækkandi blóðþrýstingur, syfja eftir máltíð ofl.


Rúsínan í pylsuendanum - það er hægt að meta ástandið með blóðprufum, blóðþrýstingsmælingum, mittismáli ofl. og bregðast við til að ná betri heilsu - þar sem tækifærin felast oftar en ekki í lífsstílsbreytum. Margt smátt gerir eitt stórt!

Comments


bottom of page